WordPress vefur á mörgum tungumálum

Uppfært 27.09.2015 – Polylang bætt við þýðingarviðbætur.

Með aukinni útbreiðslu og vinsældum WordPress eykst þörfin á ýmsum viðbótum. Eitt af því sem margir velta fyrir sér er hvernig við gefum út WordPress vef á fleiri en einu tungumáli eða leyfum notandanum að velja tungumál á einfaldan hátt, t.d með því að smella á fána á heimasíðunni.

Áður en farið er af stað í slíkar æfingar væri ágætt að staldra við og skoða hver markhópurinn er, hvert er fyrsta (e. primary) tungumál á vefnum og hvort æskilegt er að setja upp sér vef fyrir hvert tungumál. Einnig væri vert að skoða hvaða áhrif þetta hefði á leitarniðurstöður í Google. Það að gera vef eða vefi á fleiri en einu tungumáli er því ekki einungis tæknileg áskorun.

qTranslate skjámynd

qTranslate í WordPress ritlinum – Mynd frá WordPress.org

Við gætum tekið dæmi þar sem kynna þarf vöru/þjónustu á þremur tungumálum og bæði viðskiptalegir og markaðslegir hagsmunir gerðu þær kröfur að kynna þyrfti vöruna á ólíkan hátt eftir markaðssvæðum, t.d. með mismunandi verði, áherslum og ímynd.

Skoðum nokkrar ólíkar nálganir, hvernig mætti útfæra þær og kosti/galla.

1. Notum ókeypis þýðingarþjónustuna Google Translate

Einfaldasta lausnin. Google rekur bestu leitarvél í heimi. Þýðingarþjónustan þeirra á hinsvegar talsvert langt í land ennþá. Sérstaklega á þetta við þegar kemur að íslenskunni okkar.

Kostir

 • Mjög einfalt
 • Að setja inn Google Translate hnapp tekur 2 mín.
 • Allar leiðbeiningar ásamt kóða sem Google býr til fyrir okkur má nálgast hér

Ókostir

 • Allir sem prófað hafa Google Translate vita að þýðing Google á íslensku er langt frá því að fullkomin.
 • Við þurfum að sætta okkur við takmarkaða valmöguleika á útliti
 • Óvíst með stuðning við ókeypis hýsingu á WordPress.com
 • “Take it or leave it” – Lítill sem enginn möguleiki á að lagfæra þýðingar eða aðlaga okkar vef sérstaklega

2. Skiptum vefnum upp eftir tungumálum

Þessi útfærsla er gjarnan notuð þar sem ekki þykir nauðsyn að þýða vefinn í heild sinni, en mikilvægt þykir að bjóða vandaða þýðingu á hluta hans. Dæmi eru um þessa útfærslu á mörgum af stærri fyrirtækjavefjum hér á landi. Algengt er að þessi fyrirtæki séu með stóran hluta af viðskiptavinum eða notendum sínum á heimamarkaði, en þurfi jafnframt að halda úti grunnupplýsingum um fyrirtækið og helstu vörur þess á öðru tungumáli. Útfærslan er gjarnan á þá leið að smellt er á viðkomandi tungumál og færist notandinn þá niður um eitt þrep í veftrénu og það auðkennt með viðkomandi tungumáli í vefslóðinni, t.d. len.is/en fyrir ensku.

Kostir

 • Hægt að hafa efnistök nokkuð sveiganleg eftir tungumálum og landsvæðum
 • Nokkuð skýr aðgreining á tungumálum en jafnframt er hægt að samnýta mikið af efni t.d. myndir á milli tungumála
 • Virkar jafnt fyrir WordPress.com notendur sem og þá sem hýsa WordPress sjálfir

Gallar

 • Oftast myndi það þýða meiri vinnu að halda úti fleiri en einu tungumáli

3. Hver vefur með sitt tungumál

Þegar við viljum sinna hverju og einu tungumáli eða landi sérstaklega gæti verið lausnin að setja upp sér vef fyrir hvert land. Með sér vef er átt við að vefurinn sé á sér léni (len.is) eða undirléni (undirlen.len.is) Ef sýnileiki í leitarvélum á mörgum tungumálum skiptir miklu máli gæti þetta verið skynsamleg útfærsla.

Kostir

 • Hægt að hafa efnistök sveiganleg eftir tungumálum og landsvæðum
 • Með tilliti til leitarvélabestunar (SEO) er það oftast kostur að hafa skýra aðgreiningu á tungumálum eða að skýrt sé hvert sé aðaltungumálið á hverjum vef.
 • Útfærslan gengur að sjálfsögðu einnig fyrir þá vefi sem hýstir eru á WordPress.com

Gallar

 • Meiri vinna að halda úti fleiri en einum vef
 • Gæti verið erfiðara að samnýta efni eins og t.d. myndir á milli vefja

4. Notum WordPress viðbætur til að þýða vefinn

Fjórða og síðast leiðin sem ég nefni gengur einna lengst og hentar þar sem nauðsynlegt er að tryggja að allir notendur fái sömu upplýsingar óháð því hvaða tungumáli þeir skoða vefinn á. Nærtæk dæmi um slíka hér á landi væru t.d. netbankarnir. Þar getur notandinn breytt yfir í ensku og jafnvel pólsku án þess að það hafi áhrif á aðra framsetningu efnis.

Nokkrar viðbætur eru til sem gera það mögulegt að þýða vef í heild sinni. Þær virka á þann hátt að í færslum (e. posts) og síðum bætist við auka efnissvæði fyrir hvert tungumál þar sem þýðingin er sett inn. WordPress viðbótin sér síðan um að halda utan um tungumálin sem búið er að þýða og birtir fána eða heiti þeirra á vefnum.

Tvær viðbætur (e. plugin) sem halda utan um þýðingar í WordPress. Til eru fleiri viðbætur, en þessar eru nokkuð útbreiddri notkun og styðja einnig fjölda tungumála og stafagerða.

 • WPML (WordPress Multilingual Plugin) viðbótin kostar á bilinu $29 – $79
 • qTranslate er ókeypis viðbót er virkar á svipaðan hátt og WPML
 • Polylang er nýjasta viðbótin til að hjálpa okkur að halda utan um þýðingar og hefur fengið mjög góðar viðtökur. Polylang er ókeypis.

Kostir

 • Notandi getur skipt um tungumál hvar sem hann er staddur á vefnum án þess að breyta öðrum efnistökum eða “týnast”.
 • Kerfið er sérstaklega hannað til að halda utan um þýðingar og styður fjölda tungumála
 • Ýmis sérvirkni fylgir með, t.d. hægt að tengjast þýðingarþjónustum á netinu

Ókostir

 • Viðbúið að það kosti nokkra vinnu aukalega að koma vefnum upp
 • Gerir kröfur um að efni sé uppfært samtímis á fleiri tungumálum til að tryggja samræmi í upplýsingum
 • Þar sem um sérhæfða viðbót er að ræða er hún einungis samhæfð með WordPress uppsetningu sem notendur hýsa sjálfir

Ekki er ætlunin að koma með tæmandi lista hér yfir allar mögulegar útfærsluleiðir hér og eflaust eru fleiri útfærsluleiðir en þær sem hér eru taldar upp sem gæti verið vert að skoða. Áhugavert væri að heyra tillögur eða reynslusögur þeirra sem rekið hafa vefi á fleiri tungumálum í WordPress.

Tengt efni: Hver er munurin á WordPress.com og WordPress.org
Google webmaster guidelines: Multi-regional and multilingual sites
 

2 thoughts on “WordPress vefur á mörgum tungumálum

  • Valur Þór says:

   Takk Finnur. Sýnist þetta vera fínt dæmi um hvernig leið tvö kæmi út í praksis. Gleymdi svo auðvitað að taka fram hægt væri að fara út í ýmsar æfingar með custom post fields fyrir þá sem hafa smá kunnáttu þar.

Leave a Reply